Nýtt íþróttafélag varð að skipta um nafn

Svona auglýsti Saint Paul Edeh félagið á ruslatunnum í Glasgow, …
Svona auglýsti Saint Paul Edeh félagið á ruslatunnum í Glasgow, og fékk góðar viðtökur að sögn.

Nýstofnuðu knattspyrnufélagi á höfuðborgarsvæðinu var neitað af ÍSÍ að nota nafnið sem því hafði verið gefið. Félagið hét Knattspyrnufélagið Stríðsmenn og hugðist leika undir því nafni í 4. deild Íslandsmótsins á næsta ári.

Að sögn talsmanns félagsins, Saint Paul Edeh, sem hefur verið búsettur á Íslandi frá því um aldamót og lék fyrst með Fram en síðan lengi með knattspyrnufélaginu Afríku, var nafnið Stríðsmenn ekki samþykkt þar sem nafn tengt stríði samræmdist ekki gildum ÍSÍ.

Í staðinn hefur félagið nú hlotið nafnið Knattspyrnufélagið Skandinavía og leikur undir því í 4. deildinni á komandi tímabili.

Mbl.is sagði í byrjun nóvember frá óvenjulegri aðferð félagsins við að vekja athygli á sér erlendis en m.a. voru hengdar upp auglýsingar á ruslatunnum í Glasgow þar sem yfirskriftin var „Þénaðu 2.000 pund eða meira á mánuði með því að vinna og spila á Íslandi“. 

Saint Paul Edeh sagði þá að viðtökurnar hefðu verið ótrúlegar og ljóst að margir vildu koma til Íslands til að vinna og spila fótbolta í leiðinni. En hann kveðst jafnframt vilja fá eins marga Íslendinga til að koma til liðs við félagið og mögulegt er. Sjálfur starfar Saint Paul Edeh sem umboðsmaður fyrir knattspyrnumenn og er skráður sem slíkur á vef Knattspyrnusambands Íslands. 

Nú hefur félagið fengið aðstöðu til æfinga hjá FH og verður þar með reynsluæfingar fyrir leikmenn sem vilja spreyta sig hjá Skandinavíu dagana 13.—17. janúar, 24.—28. febrúar og 23.—27. mars. Um morgunæfingar verður að ræða, frá kl. 9 til 11.30. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins, en hún ber enn upprunalega nafnið Stríðsmenn.

Á heimasíðunni kemur m.a. fram að auglýst hafi verið eftir leikmönnum í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi, Króatíu, Frakklandi, Svíþjóð, Portúgal, Spáni, Bretlandi og Belgíu.

mbl.is