Liverpool kemur Aroni til aðstoðar

Aron Sigurvinsson er í mikilli endurhæfingu vegna bílslyssins og krabbameins …
Aron Sigurvinsson er í mikilli endurhæfingu vegna bílslyssins og krabbameins sem hann glímir við. mbl.is/Hari

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur rétt Aroni Sigurvinssyni, ungum knattspyrnumanni sem lenti í alvarlegu bílslysi í sumar, hjálparhönd með því að gefa fótbolta, áritaðan af leikmönnum liðsins.

Fótboltinn verður seldur hæstbjóðanda á uppboði sem fer fram á vefsíðunni fotbolti.net. Hægt er að bjóða í boltann með því að senda inn boð á fotbolti@fotbolti.net, til miðvikudagskvöldsins 18. desember.

Það er Afturelding sem hefur milligöngu í málinu en félagið hefur til margra ára verið í samstarfi við Liverpool um knattspyrnuskóla félagsins sem haldinn er árlega í Mosfellsbæ. Aron lék með yngri flokkum Aftureldingar og þjálfaði einnig um skeið yngri flokka hjá félaginu. Hann er harður stuðningsmaður Liverpool og hefur verið meðal aðstoðarþjálfara í Liverpool-skólanum hjá Aftureldingu.

Aron lenti í alvarlegu bílslysi um verslunarmannahelgina, barðist fyrir lífi sínu fyrstu dagana og hefur síðan gengist undir margar aðgerðir og erfiða endurhæfingu. Hann brotnaði á tveimur stöðum á hálsi og hlaut mikla innvortis áverka. Þá kom í ljós að hann er með krabbamein í hálsi og glíman við það bættist við endurhæfingu Arons eftir bílslysið.

mbl.is