KR-ingar að næla í markmann

Guðjón Orri Sigurjónsson gengur í raðir KR.
Guðjón Orri Sigurjónsson gengur í raðir KR. Ljósmynd/Þórir

Guðjón Orri Sigurjónsson mun eftir áramót skrifa undir samning við knattspyrnudeild Íslandsmeistara KR. Guðjón hefur síðustu tvö tímabil verið varamarkmaður Haralds Björnssonar hjá Stjörnunni. Fótbolti.net greindi frá. 

Guðjón hefur æft með KR í vetur og lék hann með liðinu á Bose-mótinu í síðasta mánuði. Hann lék tvo deildarleiki með Stjörnunni á síðasta tímabili, en hann var hjá Selfossi þar áður. Guðjón er uppalinn í Vestmannaeyjum, þar sem hann lék bæði með ÍBV og KFS. 

Eyjamaðurinn mun berjast við Beiti Ólafsson um markmannsstöðuna hjá KR, en Beitir var einn besti markmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. 

mbl.is