Mexíkóarnir snúa ekki aftur til Akureyrar

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir með þeim Stephany Mayor og Bianca Sierra.
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir með þeim Stephany Mayor og Bianca Sierra. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Mexíkósku landsliðskonurnar í knattspyrnu Stephany Mayor og Bianca Sierra hafa samið við Tigres í heimalandinu, en þær hafa leikið með Þór/KA undanfarin ár. 

Mayor var einn besti leikmaður landsins í þau fjögur sumur sem hún lék með Þór/KA og skoraði hún m.a 19 mörk í 18 deildarleikjum sumarið 2017 er Þór/KA varð Íslandsmeistari. Hún skoraði 11 mörk í 15 deildarleikjum á síðustu leiktíð. 

Sierra kom til Þórs/KA árið 2017 og varð Íslandsmeistari með liðinu. Hún spilaði einnig 15 deildarleiki á síðustu leiktíð og hefur verið mikilvægur hlekkur í vörninni undanfarin ár. 

mbl.is