Tvíburar sameinast í Breiðholti

Máni Austmann Hilmarsson og Oscar Clausen handsala samninginn.
Máni Austmann Hilmarsson og Oscar Clausen handsala samninginn. Ljósmynd/Leiknir Reykjavík

Knattspyrnumaðurinn Máni Austmann Hilmarsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Leikni Reykjavík. Hann fetar þar með í fótspor tvíburabróður síns, Dags Austmann Hilmarssonar, en hann samdi við Leikni fyrr í vetur. 

Máni og Dagur eru uppaldir í Stjörnunni en ættaðir frá Bolungarvík. Dagur er varnarmaður og Máni sóknarmaður og eiga báðir að baki leiki með yngri landsliðum Íslands.

Máni stundar nám í Bandaríkjunum og kemur til Leiknis í byrjun maí, áður en hann heldur aftur út í ágúst. Lék hann átta leiki með HK í Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð og hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild árið á undan. 

„Máni bætist í hóp góðra leikmanna sem hafa gengið í okkar raðir fyrir komandi tímabil. Leikmannahópurinn er orðinn mjög öflugur, samkeppnin innan hans er mikil og spennandi verður að fylgjast með undirbúningi liðsins áður en skemmtilegasta deild landsins verður flautuð á næsta sumar,“ er haft eftir Oscari Clausen, formanni Leiknis, á heimasíðu félagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert