Frá Akureyri í skosku úrvalsdeildina

Magðalena Ólafsdóttir.
Magðalena Ólafsdóttir. Ljósmynd/thorsport.is

Magðalena Ólafsdóttir, nítján ára knattspyrnukona úr Þór/KA á Akureyri, er á leið til Skotlands um næstu mánaðamót þar sem hún mun gera tímabundinn reynslusamning við úrvalsdeildarfélagið Forfar Farmington.

Þetta kemur fram á vef Þórs og enn fremur að samningurinn verði til eins mánaðar og Magðalena ætti að ná þremur leikjum með liðinu á þeim tíma. Keppnistímabilið í Skotlandi hefst 9. febrúar en þar er leikið á almanaksárinu en ekki yfir veturinn eins og í karladeildunum á Bretlandseyjum.

Hún verður þá fyrsta íslenska knattspyrnukonan til að spila í skosku úrvalsdeildinni.

Magðalena lék með Hömrunum, varaliði Þórs/KA, í 2. deild á síðasta tímabili og var fyrirliði liðsins, ásamt því að vera fyrirliði í Íslandsmeistaraliði 2. flokks kvenna með liði Þórs/KA/Hamranna. Hún kom síðan yfir í raðir Þórs/KA í lok júlí og lék tvo leiki í úrvalsdeildinni á lokaspretti Íslandsmótsins.

mbl.is