Anton verður aðalmarkvörður Breiðabliks

Anton Ari Einarsson.
Anton Ari Einarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Anton Ari Einarsson verður aðalmarkvörður Breiðabliks á komandi keppnistímabili en hann mun leysa Gunnleif Gunnleifsson af hólmi.

Anton kom til Breiðabliks frá Val í vetur en hann missti aðalmarkvarðarstöðuna hjá Hlíðarendaliðinu til Hannesar Þórs Halldórssonar landsliðsmarkvarðar á síðasta tímabili.

Gunnleifur hefur varið mark Breiðabliks frá 2013 og er leikjahæstur allra í deildakeppninni hér á landi frá upphafi með 439 leiki á ferlinum en skýrir frá því í færslu á Facebook í kvöld að hann sé kominn í nýtt hlutverk hjá liðinu. Hann sé kominn í þjálfarateymið og verði Antoni til halds og trausts.

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. mbl.is/Hari


„Ég mun áfram verða leikmaður liðsins, svona hálfgerður player/coach. Ég ætla að styðja við Anton sem aðalmarkmann og hjálpa honum að bæta sig, ásamt því að gefa af mér til leikmannahópsins. Ég hlakka til að vera partur af og læra af þjálfurum okkar, þeim Óskari, Dóra og Óla P. Loksins á 45. aldursári er ég tilbúinn til að taka næsta skref á ferlinum og get varla beðið,“ segir Gunnleifur á Facebook og skrifar undir: Auðmjúkur Gulli Gull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert