Ekkert heyrt í AC Milan

Elín Metta Jensen er lykilmaður í íslenska landsliðinu.
Elín Metta Jensen er lykilmaður í íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elín Metta Jensen, landsliðskona í knattspyrnu og framherji Íslandsmeistara Vals, hefur ekki heyrt í ítalska stórliðinu AC Milan en þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í dag. Ítalski vefmiðillinn donn­enelpallone.com greindi frá því í síðustu viku að ítalska stórliðið hefði mikinn áhuga á framherjanum sem er fædd árið 1995.

„Ég hef ekkert heyrt í þeim og þeir hafa ekki haft samband við Val að mér vitandi í það minnsta,“ sagði Elín Metta í samtali við mbl.is í morgun. Elín átti frábært tímabil með Val á síðustu leiktíð, skoraði 16 mörk í 18 leikjum, og var einn besti leikmaður liðsins þegar Valur varð Íslandsmeistari kvenna í ellefta sinn.

Elín Metta er í læknisfræði í Háskóla Íslands og segir að hún sé ekki að íhuga það að fara í atvinnumennsku á þessum tímapunkti. „Það er nóg að gera hjá mér, bæði í skólanum og fótboltanum, og eins og staðan er í dag er ég ekki að hugsa mér til hreyfings. Ég hef samt aldrei viljað útiloka það að reyna fyrir mér í atvinnumennsku síðar meir á ferlinum en ég hef líka sagt það áður að mér líður mjög vel á Hlíðarenda og gæti alveg spilað þar til frambúðar.“

Framherjinn öflugi var ekki í leikmannahópi Vals sem tapaði 2:1-fyrir Fylki í 1. umferð Reykjavíkurmótsins í Egilshöllinni á sunnudaginn síðasta en Elín var hvíld í leiknum. „Þjálfarinn tók þá ákvörðun að hvíla nokkra leikmenn sem höfðu ekki náð að æfa af fullum krafti fyrir leikinn. Ég er ekki að glíma við nein meiðsli og er hægt og rólega að koma mér í mitt besta form,“ bætti Elín Metta við.

Elín Metta Jensen skoraði 16 mörk í 18 deildarleikjum með …
Elín Metta Jensen skoraði 16 mörk í 18 deildarleikjum með Valskonum síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is