Get ekki lofað því að allir spili

Erik Hamrén landsliðsþjálfari.
Erik Hamrén landsliðsþjálfari. mbl.is/Hari

Erik Hamrén, þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, stefnir að því að nota eins marga úr leikmannahópi sínum í landsleikjunum við Kanada og El Salvador og mögulegt er en getur þó ekki lofað því að allir 23 muni koma við sögu.

Ísland mætir Kanada í vináttulandsleik í Irving í Kaliforníu í kvöld og hefst leikurinn á miðnætti að íslenskum tíma. Síðan er leikið gegn El Salvador í Carson á sunnudagskvöldið á sama tíma.

„Ég vil alltaf fá hagstæð úrslit úr öllum leikjum. Síðan er þetta góður undirbúningur fyrir umspilið í mars. Nokkrir sem eru hérna munu spila þar og aðrir vilja komast þangað. Það er gott að fá að sjá marga nýja leikmenn, hitta þá og ræða við þá. Það er betra að sjá þá á velli og æfingum og tala við þá en að horfa á þá í leikjum með sínum liðum. Þá kynnist maður líka persónuleikunum betur,“ segir Hamrén í viðtali á Youtube-rás Knattspyrnusambands Íslands.

Hann er spurður hvort allir leikmennirnir í hópnum fái tækifæri í leikjunum tveimur. „Ég mun nota eins marga og ég get en get ekki lofað því að allir muni koma við sögu. Það ræðst af leikjunum sjálfum og hvernig þeir þróast,“ segir Erik Hamrén en þetta er eina verkefni landsliðsins fyrir leikinn gegn Rúmeníu á Laugardalsvellinum 26. mars.

Hann er ekki með marga af fastamönnum landsliðsins í hópnum en þeir reyndustu í ferðinni eru Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Hannes Þór Halldórsson, Kolbeinn Sigþórsson, Viðar Örn Kjartansson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Kjartan Henry Finnbogason. Hinir sextán leikmennirnir hafa allir spilað sjö landsleiki eða færri og níu í hópnum geta spilað sinn fyrsta A-landsleik í ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert