Sterkari andlega eftir dvölina erlendis

Atli Barkarson skrifaði undir þriggja ára samning við Víkinga í …
Atli Barkarson skrifaði undir þriggja ára samning við Víkinga í dag. mbl.is/Bjarni Helgason

„Ég heillaðist af verkefninu sem er í gangi í Víkinni og mig langar að taka þátt í því,“ sagði Atli Barkarson, nýr leikmaður knattspyrnuliðs Víkings Reykjavíkur, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi félagsins í Fossvoginum í dag.

Atli hefur leikið erlendis undanfarin þrjú ár, fyrst með Norwich á Englandi og þá lék hann með Fredrikstad í dönsku C-deildinni síðustu vikur tímabilsins 2019. Hann er uppalinn hjá Völsungi á Húsavík en varnarmaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við Víkinga.

„Þjálfaratreymið hérna er mjög öflugt og Arnar Gunnlaugsson sýndi það í fyrra að hann hefur mikla trú á ungum leikmönnum og er tilbúinn að gefa þeim tækifæri. Ég vil spila og ég tel að ég muni fá mín tækifæri í Víkinni og þess vegna valdi ég Víkinga fram yfir önnur félög. Ég geri mér grein fyrir því að það er mikil samkeppni hér en ég ætla mér að gera allt sem ég get til þess að vera í liðinu.“

Atli er einungis 18 ára gamall og hann var því á fimmtánda aldursári þegar hann fór til Norwich á Englandi.

„Það var frábært fyrir mig að fara út svona ungur þótt margir mæli gegn því líka. Þetta var rétt skref fyrir mig á þeim tímapunkti og ég hef lært gríðarlega mikið, ekki bara í fótbolta heldur líka bara á sjálfan mig. Ég hef þurft að standa á eigin fótum og ég er mun sterkari andlega. Ég lærði hrikalega mikið, eitthvað sem ég tel að ég hefði ekki lært hérna á Íslandi, og markmiðið er að sjálfsögðu að komast út aftur einn daginn,“ bætti Atli við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert