Erfiðasti tími ferilsins

Njarðvíkingurinn Ingvar Jónsson er kominn í Víking eftir fimm ár …
Njarðvíkingurinn Ingvar Jónsson er kominn í Víking eftir fimm ár í atvinnumennsku. mbl.is/Bjarni Helgason

„Það voru nokkur lið sem settu sig í samband við mig en ég ákvað að velja Víking og ég er mjög sáttur við þá ákvörðun mína,“ sagði Ingvar Jónsson, nýr markvörður knattspyrnuliðs Víkings Reykjavíkur, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi félagsins í Fossvoginum í gær.

Ingvar, sem er þrítugur að aldri, hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár og var í EM-hópi Íslands sem féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Frökkum í París á Evrópumótinu í Frakklandi 2016. Ingvar hefur verið atvinnumaður í Noregi og Danmörku frá árinu 2014 en hann hefur leikið með Njarðvík og Stjörnunni hér heima og varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2014.

„Það var margt sem mér fannst spennandi í Víkinni. Arnar er flottur þjálfari og ég hef hitt hann nokkrum sinnum undanfarnar vikur og rætt við hann. Þjálfarateymið hérna er mjög flott og fótboltinn sem þeir vilja spila er mjög heillandi. Hópurinn hérna er mjög öflugur með Halldór Smára, Kára og Sölva í bland við þessa ungu og efnilegu stráka. Stjórnin hérna er mjög metnaðarfull og það eru allir hjá félaginu samstíga í að taka skref í rétta átt og ná alvöru árangri á næstu árum.“

Ingvar hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár en hann á að baki 8 A-landsleiki.

„Ég held það minnki ekki möguleika mína neitt sérstaklega. Það hefur sýnt sig undanfarin ár að menn hafa verið að koma heim en eru samt sem áður áfram í hópnum. Þjálfararnir vita nákvæmlega hvar þeir hafa mig og ég hef alltaf haft mjög gaman að því að mæta í landsliðsverkefni og taka þátt í því sem þar fer fram. Þrátt fyrir að ég hafi oftast verið markmaður númer þrjú á mínum landsliðsferli þá vita þjálfarar liðsins að ég er alltaf klár ef kallið kemur. Ef þeir telja mig áfram vera á meðal þriggja bestu markmanna Íslands þá vona ég að þeir velji mig þótt ég sé að spila heima á Íslandi með Víkingi.“

Ingvar Jónsson á að baki 8 A-landsleiki fyrir Ísland.
Ingvar Jónsson á að baki 8 A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Vill einbeita sér að fótbolta á nýjan leik

Ingvar gekk til liðs við danska B-deildarfélagið Viborg árið 2018 en markmaðurinn viðurkennir að tími hans í Danmörku hafi fengið mikið á hann.

„Tímabilið í Danmörku var mjög sérsakt. Ég samdi við Viborg í ágúst 2018 og markmiðið var fyrst og fremst að fara upp um deild og spila í efstu deild. Það leit allt saman mjög vel út en svo misstigum við okkur undir lok tímabils sem gerði það að verkum að við fórum ekki beint upp í úrvalsdeildina heldur þurftum að fara í umspil. Við töpuðum í úrslitaleik um laust sæti í efstu deild og eftir þann leik var allt þjálfarateymið rekið og inn kom nýtt teymi.

Það áttu sér stað miklar breytingar hjá félaginu með innkomu nýs teymis. Stefna félagsins breyttist líka og þeir vildu spila á ungum leikmönnum sem ég skildi og virti. Það voru einhverjir tíu til tólf leikmenn sem yfirgáfu félagið og ég var settur á sölulista. Undir lok félagaskiptagluggans kom tilboð frá Tyrklandi sem var samþykkt og ég samþykkti þriggja ára samning. Tveimur dögum áður en félagaskiptin áttu að ganga í gegn slítur aðalmarkmaður liðsins krossband og þá var ég allt í einu orðinn aðalmarkmaður aftur og Viborg vildi fá meiri pening fyrir mig.

Danska liðið bauð mér svo framlengingu sem ég var ekki tilbúinn að samþykkja þar sem ég var mjög pirraður út í þá. Þeir enduðu svo á að sækja U21 árs markmann frá Englandi og ég var aftur orðinn varamarkmaður. Þetta var minn erfiðasti tími á ferlinum þar sem það var mikil óvissa í kringum mig en ég er mjög sáttur með þá ákvörðun að vera kominn heim. Það var áhugi frá öðrum liðum erlendis líka en mér fannst það ekki nægilega spennandi. Ég get satt best að segja ekki beðið eftir því að geta byrjað að einbeita mér af fullum krafti að fótboltanum á nýjan leik,“ bætti markmaðurinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is