Tíu Vesturbæingar unnu og eru komnir áfram

Tobias Thomsen skoraði fyrir KR sem er komið í úrslit …
Tobias Thomsen skoraði fyrir KR sem er komið í úrslit og Hans Viktor Guðmundsson og félagar í Fjölni standa vel að vígi þrátt fyrir tap gegn Fylki. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar tryggðu sér í gærkvöld sigur í A-riðli Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu og sæti í undanúrslitum með því að vinna Þrótt 2:0 í næstsíðasta leik sínum í Egilshöllinni.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir KR-inga sem misstu Hjalta Sigurðsson af velli með rautt spjald strax á 6. mínútu og voru því manni færri nánast allan tímann. Þeir komust þó yfir á 12. mínútu þegar Ástbjörn Þórðarson skoraði.

Staðan var 1:0 fram á lokamínútur leiksins en þá innsiglaði Tobias Thomsen sigur Íslandsmeistaranna. Þeir eru með 9 stig eftir þrjá leiki og ekkert lið getur náð þeim þótt einni umferð sé ólokið.

Fjölnismenn eru nánast öruggir með annað sætið þrátt fyrir 5:3 ósigur gegn Fylki í Egilshöll í gær. Þeir eru með 6 stig og hafa lokið sínum leikjum en eru með yfirburðamarkatölu gagnvart Fylki, ÍR og Þrótti sem eru með 3 stig hvert. Fylkismenn þurfa að skora níu mörk gegn Þrótti til að ná öðru sætinu af Fjölni og komast í undanúrslitin.

Valdimar Þór Ingimundarson, Þórður Gunnar Hafþórsson, Hákon Ingi Jónsson, Ásgeir Eyþórsson og Orri Sveinn Stefánsson skoruðu mörk Fylkis en Kristófer Óskar Óskarsson skoraði tvö mörk og Ingibergur Kort Sigurðsson eitt fyrir Fjölnismenn sem komust í 2:0 og 3:2 í fyrri hálfleiknum.

Valsmenn eru komnir í undanúrslit úr B-riðlinum og annaðhvort Leiknir eða Víkingur fylgir þeim þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert