Farinn frá Val í dönsku C-deildina

Emil Lyng í leik með Val gegn FH síðasta sumar.
Emil Lyng í leik með Val gegn FH síðasta sumar. mbl.is/Hari

Danski knattspyrnumaðurinn Emil Lyng, sem lék með Valsmönnum á síðasta tímabili og áður með KA, hefur samið við danska C-deildarfélagið Middelfart til næstu átján mánaða en félagið tilkynnti um komu hans í morgun.

Lyng, sem er þrítugur sóknarmaður, kom fyrst til Íslands 2017 og lék með KA í úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði níu mörk í 20 leikjum. Eftir að hafa spilað með Dundee United í Skotlandi og Haladás í Ungverjalandi kom hann til Valsmanna fyrir síðasta tímabil. Lyng meiddist í byrjun Íslandsmótsins og náði aldrei að festa sig í sessi, var aðeins fjórum sinnum í byrjunarliði Valsmanna, spilaði alls tíu leiki í deildinni og skoraði eitt mark.

mbl.is