Valur og Víkingur í úrslit

Patrick Pedersen skoraði þrennu í gærkvöldi.
Patrick Pedersen skoraði þrennu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Valur og Víkingur komust í gærkvöldi í úrslit Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu en þau höfnuðu í efstu tveimur sætum B-riðils. Valur vann Leikni R. 3:0 í Egilshöll í gær og endaði riðilinn með fullt hús stiga en Víkingur hafði betur gegn Fram á sama velli, 4:0. Í úrslitunum mun Víkingur mæta KR og að öllum líkindum mætir Valur liði Fjölnis.

Patrick Pedersen skoraði þrennu fyrir úrvalsdeildarlið Valsara og fyrstu tvö mörkin komu á fyrsta stundarfjórðungnum gegn Leikni sem spilar í 1. deildinni. Valur vann Fram 2:1 í fyrstu umferðinni og svo Víkinga 3:0 til að enda með níu stig úr leikjunum þremur.

Víkingar tryggðu sér svo einnig sæti í úrslitunum með því að hafna fyrir ofan Leikni á markatölu er þeir unnu Framara 4:0. Nikolaj Hansen og Erlingur Agnarsson skoruðu mark hvor en þeirra á milli gerði Atli Hrafn Andrason tvö mörk. Undir lok leiks varð mikill æsingur í mönnum þegar Atli Hrafn braut af sér. Fengu tveir Framarar rautt spjald, Marteinn Örn Halldórsson og þjálfarinn Jón Sveinsson.

Lokaumferðin í A-riðli fer fram í dag í Egilshöllinni. ÍR og KR mætast klukkan 15:15 og Þróttur mætir Fylki klukkan 17:15. Fimm lið eru í riðlinum en Fjölnir hefur lokið keppni. KR er öruggt áfram en liðið er efst með níu stig úr þremur leikjum. Fjölnir er í öðru sæti með sex stig og átta mörk í plús en Fylkir, ÍR og Þróttur eru öll með þrjú stig en þó misgóða markatölu. Fylkir er næst Fjölni en þó átta mörkum undir á markatölu og því ansi líklegt að Fjölnir fari með KR-ingum í úrslitin sem hefjast 30. janúar. Þar mun Víkingur mæta KR og að öllum líkindum mætir Valur liði Fjölnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert