Þrír landsleikir á Spáni í mars

Íslenska kvennalandsliðið spilar þrjá leiki í mars.
Íslenska kvennalandsliðið spilar þrjá leiki í mars. Eggert Jóhannesson

Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu fer til Spánar í byrjun mars og tekur þar þátt í alþjóðlegu móti, Pinetar Cup, en mótherjarnir eru Norður-Írland, Skotland og Úkraína.

Íslenska liðið býr sig þar undir útileikina gegn Ungverjalandi og Slóvakíu í undankeppni Evrópumótsins sem fara fram í aprílmánuði. Leikið er 4., 7. og 10. mars.

Íslenska landsliðið hefur vanalega tekið þátt í Algarve-bikarnum í Portúgal á þessum árstíma en eftir að liðum þar var fækkað úr tólf í átta fékk Ísland ekki aðgang að mótinu í ár.

Skotland er í 22. sæti heimslista FIFA, fjórum sætum neðar en Ísland. Liðin mættust tvisvar á síðasta ári, Ísland vann vináttuleik á La Manga á Spáni í janúar, 2:1, en Skotland vann viðureign liðanna í Algarve-bikarnum í mars, 4:1. Ísland hefur unnið sex af tólf landsleikjum þjóðanna en Skotland hefur unnið fjórum sinnum. Þar á meðal var fyrsti leikurinn í sögu íslenska kvennalandsliðsins, sem Skotar unnu 3:2 á heimavelli haustið 1981.

Úkraína er í 27. sæti heimslistans og síðustu leikir gegn Íslandi voru í umspili um sæti á EM haustið 2012. Ísland vann báða leikina með sömu markatölu, 3:2 í Úkraínu og 3:2 á Laugardalsvellinum. Áður hafði Ísland unnið einn af fjórum leikjum þjóðanna á árunum 1997 til 2000.

Norður-Írland er í 56. sæti heimslistans og Ísland hefur unnið allar fjórar viðureignir þjóðanna. Liðin voru saman í riðli í undankeppni EM 2013 og þá vann Ísland 2:0 í báðum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert