Leikmenn vilja lengra Íslandsmót í fótboltanum

Valur og KR mætast í fyrsta leik Íslandsmóts karla 2020 …
Valur og KR mætast í fyrsta leik Íslandsmóts karla 2020 þann 22. apríl. mbl.is/Hari

Tæplega 86 prósent leikmanna í úrvalsdeild karla í knattspyrnu eru hlynntir því að Íslandsmótið verði lengt en það er ein af niðurstöðunum í könnun sem Leikmannasamtök Íslands gerðu á meðal leikmanna í deildinni og hefur nú verið birt.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að tilgangur könnunarinnar hafi verið að athuga hvert viðhorf leikmanna væri til þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um mögulegar breytingar á Íslandsmótinu.

Alls tóku 169 leikmenn frá liðunum tólf í deildinni þátt, eða um 70 prósent af leikmönnum deildarinnar ef miðað er við tuttugu manna leikmannahóp. Af þeim sögðust 145 vera hlynntir því að mótið yrði lengt. Tæplega 6% sögðust ekki vilja það á meðan rúmlega 8% höfðu ekki skoðun á því.

Tæplega helmingur þeirra sem svöruðu, eða 47%, töldu að deildin ætti að vera áfram skipuð tólf liðum en þau myndu spila þrefalda umferð í stað tvöfaldrar. Þar með myndi hvert lið leika 33 leiki í stað 22.

Tæplega 24% vildu hafa 14 liða deild með tvöfaldri umferð, rúmlega 17% vildu fækka liðunum niður í 10 lið og spila þrefalda umferð og rúmlega 12% vildu fjölga í 16 lið og að áfram yrði spiluð tvöföld umferð.

Tæplega 63% leikmanna þótti það mikilvægt eða mjög mikilvægt að gert yrði sumarhlé á deildinni ef til þess kæmi að mótið yrði lengt. Það skipti ekki máli hjá 26% leikmanna og rúmlega 11% sögðu að það væri ekki svo eða alls ekki mikilvægt.

Að lokum voru það tæplega 72% leikmanna sem sögðu að það væri mikilvægt eða mjög mikilvægt að samningar yrðu endurskoðaðir ef til þess kæmi að Íslandsmótið yrði lengt. Það skipti ekki máli hjá rúmlega 21% leikmanna og rúmlega 7% sögðu að það væri ekki svo eða alls ekki mikilvægt.

Í tilkynningu leikmannasamtakanna segir enn fremur:

Niðurstöðurnar sýna okkur einnig að það skiptir leikmenn máli, ef það kemur til þess að mótið verði lengt, að það verði gert hlé á deildinni yfir sumarið eins og þekkist í deildum nágrannalanda okkar. Á meðan deildin er ekki atvinnumannadeild þarf að huga að þessum hlutum þar sem flestir leikmenn eru í skóla eða vinnu með og eiga margir hverjir fjölskyldur. Að auki vilja leikmenn í miklum meirihluta að samningar verði endurskoðaðir komi til þess að Íslandsmótið verði lengt. Núverandi samningar voru gerðir með ákveðið mikla vinnu í huga og forsendurnar eru orðnar allt aðrar ef leikjunum fjölgar úr 22 í 33 eins og ein leiðin gerir ráð fyrir.

Það er mikilvægt að sjónarmið leikmanna komi fram og séu ekki hundsuð. Án leikmannanna væri enginn fótboltaleikur. Leikmenn eru á því, eins og aðrir hagsmunaaðilar, að það sé gæfuspor að lengja Íslandsmótið. Við þurfum samt að stíga varlega til jarðar og vanda okkur hvaða leið við förum. Það þarf að gera í sameiningu og best væri að finna lendingu þar sem flestir væru sáttir.

Við hlökkum mikið til að sjá hvað gerist í þessum efnum og höldum áfram að standa vörð um hagsmuni leikmanna í íslenskum fótbolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert