KR lagði Val í úrslitaleik

Aron Bjarki Jósepsson í baráttunni við Patrick Pedersen á Hlíðarenda …
Aron Bjarki Jósepsson í baráttunni við Patrick Pedersen á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR er Reykjavíkurmeistari karla í knattspyrnu eftir sigur gegn Val í úrslitaleik á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með 2:0-sigri KR en það voru þeir Kristján Flóki Finnbogason og Ægir Jarl Jónasson sem skoruðu mörk Íslandsmeistaranna í kvöld.

Kristján Flóki kom KR yfir á 45. mínútu með skalla af stuttu færi eftir laglega fyrirgjöf Kennie Chopart frá hægri. Á 62. mínútu fékk Sigurður Egill Lárusson sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt og Valsmenn því einum manni færri það sem eftir lifði leiks.

Það nýttu Vesturbæingar sér og sex mínútum síðar tvöfaldaði Ægir Jarl Jónasson forystu KR með skalla af stuttu færi úr teignum. Í uppbótartíma fengu Valsmenn vítaspyrnu en Guðjón Orri Sigurjónsson varði frá Kristni Frey Sigurðssyni og KR fagnaði sigri.

Þetta var í 40. skiptið sem KR verður Reykjavíkurmeistari en ekkert lið hefur fagnað sigri oftar í keppninni en Vesturbæingar. Valsmenn hafa unnið Reykjavíkurbikarinn 22 sinnum en Framarar hafa fagnað sigri næstoftast í keppninni eða í 27 skipti.

Upplýsingar úr leiknum voru fengnar af fótbolti.net þar sem leikurinn var í beinni textalýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert