Ætla að njóta og vera stolt af sjálfri mér

Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Fylkis, var valin í A-landsliðið í …
Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Fylkis, var valin í A-landsliðið í gær í fyrsta skipti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta kom mér svolítið á óvart, ég skal viðurkenna það. Ég var ekki alveg að búast við þessu,“ sagði knattspyrnukonan Berglind Rós Ágústsdóttir í samtali við mbl.is í dag.

Berglind var valin í A-landsliðið í fyrsta skipti fyrir leikina gegn Norður-Írlandi, Skotlandi og Úkraínu í Pinatar-bik­arn­um á Spáni í byrjun næsta mánaðar.

Berglind vissi ekki sjálf að hún væri í hópnum fyrr en vinkona hafði samband. „Vinkona mín sendi á mig og óskaði mér til hamingju og ég vissi ekkert hvað var í gangi. Ég spurði hana og hún sendi mér þetta. Ég sá þetta svo á netinu og fraus eiginlega og vissi ekki hvernig ég ætti að vera,“ sagði Berglind, sem hefur lengi stefnt að því að komast í A-landsliðið, en hún á leiki með yngri landsliðum Íslands. 

Er greinilega ekki það gömul 

„Þetta er búið að vera markmiðið mitt mjög lengi. Þetta hefur tekið sinn tíma en ég er mjög glöð að þetta tókst. Ég hugsaði alveg hvort ég væri kannski orðin of gömul því það eru margar ungar stelpur að stíga upp sem eru ótrúlega góðar.

Það eru svo leikmenn í yngri landsliðunum að stíga upp í A-landsliðið. Ég var alveg á báðum áttum, en ég er mjög glöð með að ég er greinilega ekki það gömul,“ sagði hún og hló, en Berglind verður 25 ára í sumar. 

Berglind, sem er skiljanlega stolt af sjálfri sér, ætlar sér að njóta þess að fara í fyrsta landsliðsverkefnið, en á sama tíma að reyna að heilla þjálfarateymið. 

Berglind Rós lætur finna fyrir sér síðasta sumar.
Berglind Rós lætur finna fyrir sér síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég ætla mér að njóta, hafa gaman og gera mitt besta. Ég ætla að sýna hvað í mér býr og á sama tíma að njóta og vera stolt af sjálfri mér að hafa komist í hópinn,“ sagði Berglind, sem telur sig eiga fullt erindi í landsliðshópinn. „Algjörlega. Það er alltaf erfitt að komast í hann, þar sem það eru fullt af glæsilegum, efnilegum og góðum konum og stelpum sem eru að standa sig rosalega vel. Það er mjög erfitt að komast í hópinn en maður stefnir alltaf á það.“

Berglind er fyrirliði Fylkis, sem var á dögunum Reykjavíkurmeistari í fyrsta skipti. Liðið vann alla fimm leiki sína í keppninni og fékk á sig eitt mark. Fylkir vann m.a Íslandsmeistara Vals í fyrsta leik. 

 „Það er mjög góður andi hjá okkur. Það eru stelpur að koma inn og við náum allar mjög vel saman og höfum verið að spila mjög vel. Þetta er mjög góður hópur og þess vegna skilaði fyrsti Reykjavíkurmeistaratitilinn sér. Lengjubikarinn byrjar í kvöld og við erum spenntar,“ sagði nýjasta landsliðskona Íslands. 

Fylkir mætir Stjörnunni í fyrsta leik Lengjubikarsins í Egilshöllinni klukkan 21 í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert