Hilmar Árni sá um Fjölni

Hilmar Árni Halldórsson skoraði bæði mörk Stjörnunnar.
Hilmar Árni Halldórsson skoraði bæði mörk Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan hafði betur gegn Fjölni í fyrsta leik 4. riðils í Lengjubikar karla í fótbolta í Egilshöllinni í kvöld, 2:0. 

Hilmar Árni Halldórsson, einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu ár, skoraði bæði mörk Stjörnunnar. Það fyrra kom beint úr aukaspyrnu og hitt eftir stoðsendingu Emils Atlasonar, sem kom til Stjörnunnar frá HK í vetur. 

Ásamt Stjörnunni og Fjölni eru Valur, Vestri, ÍBV og Víkingur Ólafsvík einnig í riðlinum. 

Í 3. riðli hafði FH betur gegn Þrótti Reykjavík, 3:1, í Skessunni. Danski framherjinn Morten Beck Andersen kom FH á bragðið á 16. mínútu og Jónatan Ingi Jónsson bætti við marki á 42. mínútu.

Lárus Björnsson lagaði stöðuna fyrir Þrótt á 61. mínútu en aðeins mínútu síðar innsiglaði Þórir Jóhann Helgason 3:1-sigur FH-inga. 

FH er með sex stig eftir tvo leiki í riðlinum, en 0:1-tap FH gegn HK í fyrstu umferð var breytt í sigur, þar sem HK tefldi fram ólöglegum leikmanni. Þróttur er án stiga, en Grótta Þór og HK eru einnig í riðlinum. 

mbl.is