Ágæt staða á vellinum og miklar framkvæmdir framundan

Laugardalsvöllurinn í sólinni eftir hádegið í dag.
Laugardalsvöllurinn í sólinni eftir hádegið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristinn Jóhannsson, vallarstjóri hjá KSÍ, og Bjarni Hannesson golfvallatæknifræðingur, ræddu við fjölmiðlafólk í húsakynnum KSÍ í dag um umspilsleikinn umtalaða gegn Rúmeníu í undankeppni EM karla í knattspyrnu sem fram fer 26. mars. 

Farið verður í ýmsar aðgerðir til þess að völlurinn geti verið leikfær á þessum árstíma og í boðlegu ástandi fyrir mikilvægan leik sem þennan. 

Bjarni benti á að Laugardalsvöllurinn verður ekki sumargrænn eins og í júlí þegar Rúmenarnir koma. Gæðin geta samt verið nægilega góð þótt útlitið verði ekki fullkomið. Aðalatriðið sé öryggi leikmanna sem og annarra sem sækja leikinn.

Bjarni Hannesson útskýrir stöðuna á Laugardalsvelli á fjölmiðlafundinum í dag.
Bjarni Hannesson útskýrir stöðuna á Laugardalsvelli á fjölmiðlafundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon


Kristinn benti á að í þessu ferli hafi þurft að finna lausnir fyrir völl þar sem ekki er undirhiti. Aðilar erlendis sem leitað var til reiknuðu allir með því að undirhiti væri á Laugardalsvelli. Svo er hins vegar ekki. Þar af leiðandi er farið í ýmsar aðgerðir til að fá hita í völlinn. 

Við hvað er að etja?

-Náttúrulegt gras. (skipt um gras að einhverju leyti 1992). Aldrei breytt um undirlag eða farið í miklar framkvæmdir. 

-Enginn undirhiti

-Ekkert vökvunarkerfi

-Ónýtt dren

-Opinn völlur (vindur)

Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri fer yfir stöðuna á fundinum.
Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri fer yfir stöðuna á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon


Ýmislegt sem þarf að forðast

Kristinn sýndi myndir af Laugardalsvelli seint í mars síðustu árin. Ástandið var æði misjafnt og sýnir hversu mikil áhrif veðurfarið hefur og hversu misjafnt það getur verið á veturna. Kristinn hefur fylgst náið með vellinum í vetur og settur var saman vinnuhópur eftir að ljóst var að Ísland færi í umspil. Þar sitja Kristinn, Bjarni, Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ og Theodór Hervarsson veðurfræðingur og Íslandsmeistari með ÍA á fyrri hluta tíunda áratugarins. 

Brugðist hefur verið við eftir þörfum en eitt af því sem koma þarf í veg fyrir er klakamyndun á vellinum sem gæti kæft grasið. Svipað og starfsmenn á íslenskum golfvöllum reyna að gera til að koma í veg fyrir vetrarskemmdir á flötum. Einnig getur myndast sýking við ákveðnar aðstæður og ýmislegt fleira getur komið upp á. 

Grasið er orðið merkilega grænt 18. febrúar.
Grasið er orðið merkilega grænt 18. febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon


Helstu verkefnin eru:

-Halda vellinum frostlausum að mestu. Halda vatni frá vellinum. Koma í veg fyrir polla. 

-Fylgjast vel með snjónum

-Fylgjast með sýkingum og öðrum skemmdum

-Funda með veðurfræðingum. Veðurstofan hefur sent KSÍ veðurspár vikulega. 

Desember var fínn að sögn Kristins. Árið endaði því á fínum nótum varðandi völlinn. Í janúar var frost, snjór og haglél til skiptis. Erfiðari mánuður en desember en þó myndaðist ekki klaki eins og þeir óttuðust mest. Vatn, vindur, kuldi og takmörkuð sól eru þeir þættir sem gera verkefnið erfitt.

Grasið í návígi í dag.
Grasið í návígi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon


Ýmis konar fjárfestingar

KSÍ hefur þurft að fara í ýmis konar fjárfestingar vegna leiksins. Nýir dúkar voru keyptir. Þeir skipta máli þegar nær dregur. Verða notaðir í mars og geta hjálpað til við að búa til hita. 

Einnig var keypt mikið magn af steinull sem er hægt að nota á réttum tímapunkti ef á þarf að halda. Sérstaklega ef mikill kuldi verður. Þá er reynt að herma eftir snjó með slíkri einangrun en snjór getur verið jákvæður fyrir grasið í vetrardvalanum. 

Þá verður aftur fenginn yfirbreiðsla sem kallast Macleod Cover. Var hún einnig notuð snemma vetrar 2013 þegar Ísland mætti Króatíu í umspili fyrir HM en nú er um endurbætta útfærslu að ræða. Er þá blásið hita undir tjaldi. Þessi búnaður kemur í byrjun mars. Mikilvæg aðgerð vegna leiksins og sú mikilvægasta sem farið verður í í mars að sögn Kristins. Þessi búnaður nær bleytu úr vellinum og minnkar rakastigið. Stefnt að því að losna við frost úr jarðvegi með þessari aðgerð.

Eitt og annað skipir máli varðandi framkvæmd leiksins því ekki nægir að hugsa um öryggi leikmanna. Einnig þarf að hugsa um öryggi þeirra sem starfa við leikinn og þeirra sem sækja leikinn. Þegar tíu þúsund manns arka á völlinn í mars þá getur til dæmis verið slysahætta vegna veðurs eða hálku sem ekki er vandamál á sumrin. 

Þá þarf einnig umhverfið í kringum völlinn að vera boðlegt. Hvort sem það er fyrir varamenn og starfsmenn liðanna eða þá sem starfa á því svæði eins og gæsluna, ljósmyndara, sjúkraflutningafólk, lögreglu og fleiri. Svo ekki sé minnst á þá sem vinna við VAR-búnaðinn. 

Vestari hluti vallarins
Vestari hluti vallarins mbl.is/Kristinn Magnússon


Lítil langtímaáhrif fyrir völlinn

Hjá Kristni kom fram að markmiðið sé að völlurinn verði leikhæfur. Þar af leiðandi eru vinnubrögðin annars konar en vanalega þegar starfsmenn vallarins undirbúa völlinn fyrir hið hefðbundna knattspyrnutímabil á Íslandi. Menn vilja ekki undirbúa völlinn svo snemma alla jafna. Nú verður breyting á og því spurning um afleiðingarnar fyrir völlinn um vorið.

Sú aðgerð að gera völlinn leikhæfan í mars og spila á honum gæti þýtt að bakslag komi í framhaldinu áður en Íslandsmótið tekur við. Annað plan tekur við hjá starfsmönnum í apríl og maí til að undirbúa sumarið. Þessi óvænta dagsetning á landsleik mun hafa áhrif á völlinn en ekki til lengri tíma. Völlurinn gæti orðið lélegur í maí en starfsmenn munu koma honum aftur í gang í sumar benti Bjarni á. 

Verður æft á vellinum?

Þegar að þessu kemur er stefnt er að því að leyfa tvær æfingar hjá liðunum fyrir leikinn. Þau eiga rétt á því daginn fyrir leik. Hins vegar er hægt að hætta við ef ástæða þykir til og fordæmi eru fyrir slíku. Yrði það gert ef talið yrði að æfingarnar myndu minnka verulega líkurnar á því að völlurinn verði góður á leikdegi. Fari svo að liðin æfi ekki á vellinum þá verður boðið upp á gervigras í Reykjavík, innandyra eða utandyra, eftir því hvort liðin vilja frekar. 

Annasamur leikdagur

Mörg verkefni bíða starfsmanna KSÍ og sjálfboðaliða til að gera völlinn leikhæfan á leikdegi. Mörg þessara verkefna eru unninn síðustu tvo til þrjá dagana fyrir landsleiki undir venjulegum kringumstæðum. Í þessu tilfelli verður það gert frá hádegi á leikdegi. 

-Fjarlægja dúkinn af vellinum

- Rúlla völlinn

- Spreyja völlinn

- Slá völlinn

- Mála

- Setja mörkin upp

- Setja upp auglýsingaskiltin

- Ýmislegt fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert