Leggja til að beðið verði með fjölgun leikja

Valur og KR hefja Íslandsmótið 2020 þann 22. apríl.
Valur og KR hefja Íslandsmótið 2020 þann 22. apríl. mbl.is/Árni Sæberg

Starfshópur um fjölgun leikja í úrvalsdeild karla í knattspyrnu sem skipaður var á stjórnarfundi KSÍ í desember leggur til að liðum eða leikjum í deildinni verði ekki fjölgað fyrir keppnistímabilið 2021 eins og lagt er til í tillögu frá ÍA sem lögð verður fyrir ársþing KSÍ í Ólafsvík næsta laugardag.

Þar er lagt til að liðum í deildinni verði fjölgað úr 12 í 14 fyrir tímabilið 2021 og í 16 fyrir tímabilið 2022.

Starfshópurinn segir m.a. í niðurstöðu sem KSÍ birti á vef sínum um helgina að breyting á mótahaldi þurfi að hafa víðan stuðning svo hún nái fram að ganga og takist vel í framkvæmd. „Skapa þarf því vettvang til að umræðan haldi áfram með það að markmiði að á ársþinginu 2021 náist sátt um tillögu um breytt fyrirkomulag sem tæki gildi keppnistímabilið 2022 í tengslum við nýja samninga varðandi markaðs- og sjónvarpsréttindi,“ segir í skýrslunni.

Hópurinn metur að umræðan sé of skammt á veg komin til að hægt sé að ná fram niðurstöðu á þessum tímapunki og leggur til að hann starfi áfram og fái tíma til að móta niðurstöðu fram að formannafundi haustið 2020.

Hópinn skipa eftirtaldir:
Frá aðildarfélögum: Börkur Edvardsson (Valur), Haraldur Haraldsson (Víkingur/ÍTF/Stjórn KSÍ), Orri Hlöðversson (Breiðablik) og Þórir Hákonarson (Þróttur/ÍTF)
Frá KSÍ: Björn Friðþjófsson og Valgeir Sigurðsson
Frá fjölmiðlum: Tómas Þór Þórðarson (form. Samtaka íþróttafréttamanna)

Frétt á vef KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert