Fékk rautt fyrir að mótmæla marki

Grótta náði í sterkt jafntefli gegn FH.
Grótta náði í sterkt jafntefli gegn FH. mbl.is/Árni Sæberg

FH og Grótta skildu jöfn, 1:1, í Lengjubikar karla í fótbolta í Skessunni í Hafnarfirði í kvöld. Jöfnunarmark Gróttu var umdeilt og fékk varamaður FH rautt spjald fyrir mótmæli í kjölfarið. 

FH komst yfir á 45. mínútu er hinn 18 ára gamli Óskar Atli Magnússon skoraði úr vítaspyrnu og voru hálfleikstölur 1:0. 

Grótta fékk aukaspyrnu á 55. mínútu og úr henni skoraði Kristófer Orri Pétursson jöfnunarmark. FH-ingar voru allt annað en sáttir, þar sem þeir vildu meina að boltinn hafi ekki farið allur inn. 

Dómarinn Pétur Guðmundsson dæmdi hins vegar markið gott og gilt og gaf Guðmanni Þórissyni, varamanni FH, rautt spjald á bekknum fyrir mótmæli í kjölfarið. 

FH er með sjö stig eftir þrjá leiki í 3. riðli og Grótta með fjögur stig eftir tvo leiki og eru liðin í tveimur efstu sætunum. 

Í Twitter-færslu Tómas Þórs Þórðarsonar hér fyrir neðan má sjá hinn unga Óskar Atla skora mark sitt fyrir FH.

mbl.is