Nani skoraði tvö mörk gegn KR-ingum

Gunnar Gunnarsson með boltann í leiknum í Orlando í nótt.
Gunnar Gunnarsson með boltann í leiknum í Orlando í nótt.

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Nani, sem lék á árum áður með Manchester United, skoraði tvö mörk gegn Íslandsmeisturum KR í nótt þegar bandaríska liðið Orlando City lagði Vesturbæjarliðið að velli, 3:1, í æfingaleik á heimavelli sínum á Flórída, Exploria Stadium, sem rúmar 25 þúsund áhorfendur.

Öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik og hinn 33 ára gamli Nani skoraði fyrsta og þriðja markið og Benji Michel kom Orlando í 2:0. Kristján Flóki Finnbogason minnkaði muninn fyrir KR í 2:1 um miðjan fyrri hálfleik.

Lið Orlando City er á lokasprettinum í undirbúningi fyrir MLS-deildina þar sem það mætir Real Salt Lake í fyrstu umferðinni eftir tíu daga. Öllu lengra er í fyrsta leik KR á Íslandsmótinu en hann er gegn Val 22. apríl.

KR-ingar leika annan leik í ferðinni en þeir mæta öðru MLS-deildarliði, Cincinnati, í Bradenton í Flórída á föstudagskvöldið.

Mörk Orlando má sjá í myndskeiðinu fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert