Nýliðarnir að austan fá liðsauka frá Slóveníu og Líbanon

Leiknir á Fáskrúðsfirði leikur í 1. deild í ár.
Leiknir á Fáskrúðsfirði leikur í 1. deild í ár. Ljósmynd/@Leiknirfask

Leiknir á Fáskrúðsfirði, sem er nýliði í 1. deild karla í knattspyrnu, hefur fengið til sín markvörð frá Líbanon og framherja frá Slóveníu fyrir baráttuna í sumar.

Þeir eru komnir með leikheimild og geta leikið með Leiknismönnum þegar þeir mæta Skagamönnum í Akraneshöllinni í Lengjubikarnum á morgun.

Danny El-Hage er 25 ára gamall markvörður sem hefur leikið með yngri landsliðum Líbanon en er fæddur í Póllandi. Hann kemur til Leiknis frá Lori Vanadzor, efsta liðinu í úrvalsdeildinni í Armeníu þar sem hann var varamarkvörður, og var fyrri hluta síðasta árs með neðrideildarliði í Svíþjóð en lék í Líbanon fram að því.

Tom Zurga er 22 ára gamall slóvenskur framherji sem er uppalinn hjá Triglav Kranj í Slóveníu og hefur leikið þar allan sinn feril, og með aðalliði félagsins í tveimur efstu deildunum frá 16 ára aldri. Hann hefur leikið átta leiki í efstu deildinni í Slóveníu á þessu tímabili og samtals 55 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 5 mörk en Triglav er í sjöunda sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert