Sautján mörk í þremur leikjum

Arnór Gauti Ragnarsson skoraði tvö mörk fyrir Fylki.
Arnór Gauti Ragnarsson skoraði tvö mörk fyrir Fylki. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Mörkunum rigndi inn í þremur síðustu leikjum dagsins í Lengjubikar karla í fótbolta. Fylkir skoraði m.a. átta mörk gegn Magna er liðin mættust í 2. riðli.

Arnór Gauti Ragnarsson, Valdimar Þór Ingimundarson, Sam Hewson og Þórður Gunnar Hafþórsson voru allir búnir að skora fyrir Fylki þegar Fannar Örn Kolbeinsson skoraði sjálfsmark og kom Fylki í 5:0 gegn Magna á Würth-vellinum í Árbæ. 

Arnór Gauti skoraði sjötta markið á 50. mínútu, áður en Alexander Ívan Bjarnason lagaði stöðuna fyrir Magna á 63. mínútu. Fylkir skoraði hins vegar tvö mörk á síðustu fimm mínútunum. Þau gerðu Ólafur Ingi Skúlason og Hákon Ingi Jónsson og urðu lokatölur því 8:1. 

Þórsarar unnu stórsigur á Grindavík en Magni fékk skell gegn …
Þórsarar unnu stórsigur á Grindavík en Magni fékk skell gegn Fylki. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fylkir er í öðru sæti riðilsins með fjögur stig, tveimur á eftir Víkingi Reykjavík. Magni er á botninum án stiga. 

Í 3. riðli skellti Þór frá Akureyri Grindvíkingum í Akraneshöllinni, 5:0. Fannar Daði Malmquist Gíslason og varamaðurinn Sölvi Sverrisson skoruðu tvö mörk hvor og Spánverjinn Álvaro Montejo eitt. Stigin eru þau fyrstu hjá Þór í riðlinum en Grindavík er án stiga eftir tvo leiki. 

Þá vann Vestri 3:0-sigur á Víkingi Ólafsvík í Akraneshöllinni í 4. riðli. Daniel Osafo-Badu, Viktor Júlíusson og Vladimir Tufegdzic gerðu mörk Vestra í fyrri hálfleik. Vestri er með þrjú stig í riðlinum en Víkingur er án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert