Fimm mörk skoruð er bestu lið landsins mættust

Breiðablik hafði betur gegn Val í kvöld.
Breiðablik hafði betur gegn Val í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik hafði betur gegn Val, 3:2, er liðin mættust í A-deild Lengjubikars kvenna í fótbolta á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld. 

Rakel Hönnudóttir, sem sneri aftur til Breiðabliks eftir tvö ár erlendis í atvinnumennsku, kom liðinu yfir á 17. mínútu og Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði annað markið í blálok fyrri hálfleiks, en hún kom frá Keflavík í sumar. 

Það tók Rakel aðeins fjórar mínútur í seinni hálfleik að skora sitt annað mark og þriðja mark Breiðabliks og var staðan góð fyrir liðið sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð á eftir Val. 

Meistararnir gáfust ekki upp. Fanndís Friðriksdóttir, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks, minnkaði muninn á 70. mínútu og markavélin Elín Metta Jensen skoraði á 85. mínútu. Nær komst Valur ekki og Breiðablik fagnaði sigri. 

Breiðablik er með sex stig í riðlinum, eins og Fylkir, og Valur er með þrjú stig. Stjarnan, Þór/KA og Selfoss eru án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert