Fyrrverandi dómari sendir KSÍ tóninn

Garðar Örn Hinriksson dæmdi í efstu deild frá 1998 til …
Garðar Örn Hinriksson dæmdi í efstu deild frá 1998 til ársins 2016 þegar hann lagði flautuna á hilluna. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Garðar Örn Hinriksson, fyrrverandi dómari í efstu deild karla í knattspyrnu, sendi inn áhugaverðan pistil á vefmiðilinn fótbolti.net í dag. Garðar Örn hóf störf sem knattspyrnudómari árið 1989 og lagði flautuna á hilluna árið 2016. Hann starfaði hjá KSÍ á árunum 1994 til 2016, var alþjóðlegur dómari á árunum 2005 til 2009 og efstudeildardómari frá 1998 til 2016. Garðar er ósáttur við viðskilnað sinn við KSÍ og segir að hann hafi ekki einu sinni fengið klapp á bakið fyrir vel unnin störf þegar hann hætti að dæma.

Ég hóf feril minn sem knattspyrnudómari fyrir alvöru árið 1989 og lagði flautuna á hilluna árið 2016. Hjá knattspyrnusambandinu starfaði ég frá 1994 til 2016. Á þessum tíma var ég alþjóðlegur dómari frá 2005 til 2009 og efstudeildardómari frá 1998 til 2016. Maður hefði haldið að eftir allan þennan tíma fengi maður einhvers konar viðurkenningu eða þakklætisvott frá knattspyrnusambandinu fyrir störf sín en svo er ekki og það þykir mér óskaplega dapurt.“

„Reyndar er hálfömurlegt hvernig er komið fram við dómara sem hafa eytt stórum hluta ævi sinnar við að vinna fyrir sambandið þegar þeir hætta. Það er ekki einu sinni sagt takk! Og þetta virðist eiga við um alla dómara sem hafa hætt svo ég viti til. Alþjóðlegir dómarar, sem eru í raun landsliðsmenn á meðal dómara, fá ekki einu sinni þakklætisvott frá sambandinu. Einungis kaldar kveðjur beint í andlitið eftir áralangt starf.“

Hurðinni skellt beint á nefið þegar maður gengur út! Ég er ekki að fara fram á það að fara á fund hjá knattspyrnusambandinu og fara heim með fullar hendur af viðurkenningum og gjöfum. Mér finnst bara að KSÍ mætti sýna dómurum meiri virðingu en þeir gera og sýna það hversu mikilvægir þeir eru. Dómarar eru ekkert minna mikilvægir en leikmenn sem hafa náð 100 landsleikjum eða fólk sem hefur unnið önnur mikilvæg störf fyrir sambandið. Þetta er í raun, „Ertu að hætta? Ok, bæ!“ bætti Garðar svo við en pistilinn í heild sinni má sjá með því að smella hér.

mbl.is