Grindavík náði stigi á Nesinu

Pétur Theódór Árnason skoraði fyrir Gróttu í dag.
Pétur Theódór Árnason skoraði fyrir Gróttu í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Grótta og Grindavík gerðu 2:2-jafntefli á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Þá fékk Víkingur Ó. skell í Skessunni í Hafnarfirði gegn Fjölni, 5:1.

Pétur Theódór Árnason og Kristófer Melsted skoruðu hvor sínu megin við hálfleikinn til að koma heimamönnum í Gróttu í tveggja marka forystu en Seltirningar leika í efstu deild í sumar eftir að hafa unnið fyrstu deildina í fyrra.

Grindavík, sem féll úr Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð, náði að jafna metin með tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla. Aron Jóhannsson minnkaði muninn á 53. mínútu og Alexander Veigar Þórarinsson jafnaði metin skömmu síðar.

Grindavík gat tryggt sér sigurinn en Hákon Rafn Valdimarsson markvörður Gróttu var hetja sinna manna þegar hann varði vítaspyrnu frá Aroni Jóhannssyni.

Grótta er í 3. sætinu í þriðja riðli A-deildarinnar með fimm stig eftir þrjá leiki. Grindavík er í 5. og næstneðsta sæti með aðeins eitt stig úr þremur leikjum.

Fjölnir fór upp að hlið ÍBV á toppi fjórða riðilsins með stórsigrinum gegn Ólafsvíkingum, sem eru áfram á botninum án stiga eftir þrjár umferðir. Fjölnir og ÍBV eru með sex stig.

Jón Gísli Ström skoraði fyrstu tvö mörk Fjölnismanna en þar á milli tókst Bjarti Bjarma Barkarsyni að jafna metin. Ingibergur Kort Sigurðsson bætti svo við tveimur mörkum fyrir Fjölni eftir hlé og þar á milli skoraði Sigurpáll Melberg Pálsson eitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert