Sá markahæsti stefnir á endurkomu í vikunni

Gary Martin skoraði 14 mörk í fimmtán leikjum í deildinni …
Gary Martin skoraði 14 mörk í fimmtán leikjum í deildinni á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gary Martin, markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á síðustu leiktíð og leikmaður ÍBV, reiknar með því að snúa aftur til landsins í vikunni en það er fótbolti.net sem greinir frá þessu. Framherjinn, sem er enskur, hefur verið á láni hjá Darlington í heimalandi sínu frá því í janúar.

Gary kom inn á sem varamaður hjá Darlington í gær í 4:2-tapi gegn Farsley Celtic í ensku utandeildinni og var það öllum líkindum hans síðasti leikur með liðinu. „EasyJet aflýsti flugum í morgun, en svo lengi sem Ísland heldur flugvellinum opnum og að England stoppar ekki för mína þá verð ég kominn aftur á eyjuna fyrr en varir,“ sagði Gary við Fótbolta.net í gær.

„Ég gæti farið á fimmtudaginn því þessari deild verður frestað í tvo mánuði og það þýðir ekki fyrir mig að vera hér. Ef ég fer ekki á mánudag fer ég á fimmtudag. En ef ég ætti að giska þá er það á fimmtudaginn,“ sagði framherjinn í samtali við Fótbolta.net. Gary Martin mun leika með ÍBV í 1. deildinni næsta sumar eftir að félagið féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert