Tapið hleypur á tugum milljóna

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var gestur í Sportinu í dag, …
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var gestur í Sportinu í dag, nýjum sjónvarpsþætti á Vísi.is í dag. mbl.is/Hari

KSÍ, Knattspyrnusamband Íslands, mun tapa í kringum 50-60 milljónum íslenskra króna hið minnsta, fari svo að umspilsleikur Íslands og Rúmeníu fyrir lokakeppni EM 2020, verði blásinn af. Þetta staðfesti Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í sjónvarpsþættinum Sportinu í dag á Vísi.is í dag.

Á morgun mun UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið, funda ásamt aðildarfélögum sínum um næstu skref sambandsins vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina. KSÍ leigði til að mynda hitadúk til þess að Laugardalsvöllur yrði klár fyrir umspilsleikinn gegn Rúmenum sem á að fara fram þann 26. mars.

Það verður hins vegar að teljast afar ólíklegt að leikurinn muni fara fram enda hefur keppni í öllum stærstu deildum Evrópu verið frestað fram í apríl vegna kórónuveirunnar. KSÍ getur ekki tekið hitadúkinn af Laugardalsvellinum, þar sem það myndi skaða grasið á vellinum afar mikið, og því er sambandið í þröngri stöðu þessa dagana.

Þá átti Guðni einnig von á því að lokamót Evrópukeppninnar, sem á að fara fram í sumar í tólf borgum víðs vegar um Evrópu, yrði frestað. „Ég á von á því að mótinu verði frestað og eins og þetta horfir við manni í dag fyndist manni í raun réttast að fresta mótinu fram á sumarið 2021 þegar það versta ætti að vera yfirstaðið,“ sagði Guðni meðal annars í Sportinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert