Ísland mætir Rúmeníu í júní

Stefnt er að því að leikur Íslands og Rúmeníu í …
Stefnt er að því að leikur Íslands og Rúmeníu í umspili fyrir EM fari fram í júní. mbl.is//Hari

UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, staðfesti það nú rétt í þessu að ákveðið hefði verið að fresta lokamóti EM karla, sem átti að fara fram í sumar, til sumarsins 2021 vegna kórónuveirunnar. UEFA fundaði ásamt 55 aðildarfélögum sínum í dag þar sem þessi ákvörðun var tekin.

EM átti að fara fram í tólf borgum víðsvegar um Evrópu dagana 12. júní til 12. júlí en hefur nú verið frestað um ár og mun því fara fram dagana 11. júní til 11. júlí 2021. Þá hefur umspilinu fyrir lokakeppnina, þar sem Ísland átti að mæta Rúmeníu 26. mars á Laugardalsvelli, verið frestað fram í byrjun júní.

„UEFA hefur ákveðið að fresta Evrópumótinu Euro 2020, sem átti að fara fram í júní og júlí á þessu ári,“ segir í tilkynningu UEFA. „Heilsa þeirra sem koma að leiknum er og verður ávallt í fyrsta sæti. Eins vildi UEFA ekki setja of mikla pressu á yfirvöld viðkomandi landa sem koma að því að halda mótið.

Að fresta mótinu um ár gerir aðildarsamböndum UEFA kleift að klára sín mót á næstunni en nánast öllum deildarkeppnum í Evrópu hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar. Allir leikir innan UEFA, bæði kvenna- og karlamegin, eru nú á bið þangað til annað kemur í ljós. Þá mun umspil fyrir lokakeppni EM fara fram í byrjun júní, ef ekkert breytist,“ segir í tilkynningu UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert