Mikill léttir fyrir alla

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

„Ég held að það sé bara ákveðinn léttir fyrir alla að þessir hlutir séu nokkurn veginn komnir á hreint,“ sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

UEFA fundaði ásamt 55 aðildarfélögum sínum um framtíð fótboltans í Evrópu vegna kórónuveirunnar í dag og var meðal annars ákveðið að fresta lokamóti EM, sem fara átti fram í sumar, til sumarsins 2021. Þá er stefnt að því að spila umspilsleik Íslands og Rúmeníu í byrjun júní á þessu ári en leikurinn átti upphaflega að fara fram 26. mars næstkomandi á Laugardalsvelli.

„Það var virkilega gott að fá það á hreint hvernig umspilinu yrði háttað enda snertir það okkur með beinum hætti. Við vorum vissulega byrjuð að undirbúa þessa frestun en það var flott að fá þetta staðfest. Við erum nú þegar byrjuð að undirbúa leikinn í júní þótt við séum ekki komin með staðfestar dagsetningar. Við leigðum hitadúk til þess að völlurinn yrði í góðu ásigkomulagi í mars en dúkurinn verður fjarlægður fljótlega eftir 26. mars. Núna þurfum við að reyna að lágmarka þær skemmdir sem gætu orðið ef það kemur aftur frost en sem betur fer eru ákveðin hlýindi í kortunum.“

KR er ríkandi Íslandsmeistari karla í knattspyrnu en óvíst er …
KR er ríkandi Íslandsmeistari karla í knattspyrnu en óvíst er hvenær Íslandsmótið mun hefjast. mbl.is/Hari

Hlutirnir skýrast á fimmtudaginn

Klara ítrekar að fundurinn með öllum aðildarsamböndum UEFA hafi verið mjög góður og mikil samkennd ríkt á honum.

„Auðvitað eru það mikil vonbrigði að vera búin að undirbúa leik sem svo verður ekki en svona er þetta bara og við því er ekkert að gera. Þetta var mjög góður fundur sem einkenndist fyrst og fremst af samkennd. Það eru auðvitað engin fordæmi fyrir svona fundi í gegnum tíðina en það voru allir samtaka um að reyna að vinna saman eins vel og kostur er miðað við aðstæður. Við lögðum ekki fram neinar sérstakar tillögur á fundinum, það komu mjög vel mótaðar tillögur frá UEFA, sem var greinilega búið að ræða við marga hagsmunaaðila.“

Stjórn KSÍ kemur saman á fimmtudaginn kemur og mun þá funda um framtíð íslensks fótbolta og Íslandsmótsins sem á að hefjast í lok apríl á þessu ári.

„Við erum bjartsýn en það hafa engar ákvarðanir verið teknar. Það er Íslandsmót í sumar sem þarf að huga að en við munum funda um þetta á fimmtudaginn kemur og þá ættu málin að skýrast betur,“ bætti Klara við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert