Íslandsmótinu líklega frestað

Íslandsmót karla í knattspyrnu átti að hefjast 22. apríl með …
Íslandsmót karla í knattspyrnu átti að hefjast 22. apríl með leik Vals og KR en það verður að teljast líklegt að þeim leik verði frestað. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var gestur í útvarpsþættinum Bítinu í morgun sem er á dagskrá Bylgjunnar. Umsjónarmenn þáttarins eru þeir Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason en í þættinum fór Guðni meðal annars yfir framtíð íslensks fótbolta vegna kórónuveirunnar.

Í gær hélt UEFA neyðarfund ásamt 55 aðildarsamböndum sínum þar sem var meðal annars ákveðið að fresta lokamóti Evrópumótsins um eitt ár svo hægt væri að ljúka deildarkeppnum í Evrópu sem hefur nánast öllum verið frestað fram í apríl vegna veirunnar.

KSÍ tilkynnti það í síðustu viku að öllum leikjum innan sambandsins hefði verið frestað og þá mun stjórn sambandsins funda á morgun og fara betur yfir framhaldið. Íslandsmótið í knattspyrnu á að hefjast í apríl en það verður að teljast ólíklegt að það gangi eftir.

„Við erum að ráða ráðum okkar hvað það varðar út af þessu samkomubanni og þessum faraldri sem gengur nú yfir. Við verðum að bregðast við þannig að við erum að fara yfir þetta hjá mótanefndinni og svo á stjórnarfundi á morgun. Ég geri frekar ráð fyrir því að við munum fresta mótinu eitthvað,“ sagði Guðni Bergsson í Bítinu í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert