Kom ekkert annað til greina en að standa með félaginu

Leikmenn knattspyrnuliða Vals áttu frumkvæðið að því að taka á …
Leikmenn knattspyrnuliða Vals áttu frumkvæðið að því að taka á sig launalækkun á þessum erfiðu tímum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikmenn og þjálfarar knattspyrnuliðs Vals hafa boðist til þess að taka á sig launalækkun vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í hádeginu. Allt íþróttastarf innan félagsins hefur legið niðri eftir að samkomubann var sett á hér á landi og hefur það haft mikil áhrif á rekstur félagsins.

Í tilkynningunni segir að leikmenn, þjálfarar og aðrir starfsmenn hafi átt frumkvæðið að því að taka á sig launalækkun út almannaksárið 2020. „Það kom ekkert annað til greina en að standa með félaginu okkar og okkur sjálfum á þessum erfiðu tímum, eins og einn góður maður sagði,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, meðal annars.

„Liðsheildin okkar er sterk og einstök samkennd er í hópnum og menn eru tilbúnir allir sem einn að rétta fram hjálparhönd enda stefnum við allir og öll í sömu átt,“ bætti fyrirliðinn við en frá og með næstu mánaðarmótum mun breytt fyrirkomulag varðandi launatengdar greiðslur taka við hjá félaginu.

Fréttatilkynningu Vals í heild sinni má sjá hér. 

mbl.is