Leikjum karla- og kvennalandsliðanna í fótbolta frestað

Óvíst er hvenær leikir kvennalandsliðsins í undankeppni EM fara fram.
Óvíst er hvenær leikir kvennalandsliðsins í undankeppni EM fara fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ljóst er að hvorki karla- né kvennalandslið Íslands í knattspyrnu leika landsleiki í júnímánuði eins og fyrirhugað var. Þeim hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þetta var tilkynnt á fundi UEFA með aðildarþjóðunum í dag og KSÍ hefur birt niðurstöðuna á vef sínum.

Karlalandsliðið átti að mæta Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins um sæti á EM en þeim leik hafði verið frestað til 4. júní eftir að hann átti upphaflega að fara fram 26. mars. Ef sá leikur vinnst er leikið til úrslita við Búlgaríu eða Ungverjaland.

Kvennalandsliðið átti að leika við Ungverjaland og Slóvakíu í undankeppni EM 2021 í apríl en þeim leikjum hafði verið frestað. Síðan áttu að vera leikir við Lettland og Svíþjóð í sömu keppni í júní. Nú hefur þessum leikjum öllum verið frestað um ókveðinn tíma, enda stefnir allt í að EM kvenna verði frestað til sumarsins 2022.

Þá hefur úrslitakeppni U19 kvenna verið aflýst en Ísland átti að leika í milliriðli þeirrar keppni núna í apríl.

Úrslitakeppni EM U17 kvenna og U19 karla hefur verið frestað um óákveðinn tíma en Ísland átti fyrir höndum leiki í milliriðlum beggja mótanna. Þar sem lið tryggja sér sæti á HM í þessum aldursflokkum með árangri á EM er þeim ekki aflýst.

mbl.is