Óskar engum þess að sitja í fangelsi

Birkir Kristinsson lék 74 A-landsleiki fyrir Ísland.
Birkir Kristinsson lék 74 A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Árni Sæberg

Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu, var gestir vikunnar í hlaðvarpsþættinum Miðjunni á vefmiðlinum Fótbolti.net í gær. Í þættinum ræddi hann meðal annars um fangelsisvist sína en hann var úrskurðaður í fjögurra ára fangelsi fyrir efnahagsbrot í desember 2015.

Birkir var viðskiptastjóri hjá einkabankaþjónustu Glitnis fyrir hrun en hann var ákærður fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til einkahlutafélagsins BK-44 sem var í eigu Birkis. Birkir var upphaflega dæmdur í fimm ára fangelsi en hæstiréttur mildaði dóminn í fjögur ár.

„Ég fékk dóminn 3. desember 2015 og mætti beint í Fangelsismálastofnun morguninn eftir og bað um að fá að hefja afplánun,“ sagði Birkir í Miðjunni í gær. „Þetta var í sjálfu sér ömurleg tímasetning. Ég held að allar tímasetningar séu ömurlegar í þessu en erfitt rétt fyrir jól gagnvart fjölskyldunni og þeim sem standa mér næst.

Það var erfitt en ég var búinn að ákveða að ef þetta færi á versta veg þá myndi ég hefja afplánun strax því ég vildi ekki hafa þetta yfir hausamótunum á mér. Ég fékk að fara inn viku seinna, kom inn á Skólavörðustíginn sunnudeginum á eftir og var fluttur á Kvíabryggju nokkrum dögum seinna. Ég var kominn þangað í kringum 20. desember.“

Birkir ræddi svo tíma sinn í fangelsinu en hann lék 74 A-landsleiki fyrir Ísland.

„Þetta voru skrítnir tímar, ég óska engum þess að þurfa að sitja inni. Ég bað ekki um það og langaði ekki til þess en þegar það var kominn dómur var ekkert annað en að fylgja þeim dómi og bíta í það súra epli og takast á við það,“ bætti fyrrverandi landsliðsmarkvörðurinn við í hlaðvarpsþættinum Miðjunni.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert