Rúnar reyndi við Heimi

Rúnar Páll Sigmundsson hefur verið þjálfari Stjörnunnar frá árinu 2013.
Rúnar Páll Sigmundsson hefur verið þjálfari Stjörnunnar frá árinu 2013. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Það vakti mikla athygli síðasta haust þegar Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu, ákvað að fá Ólaf Jóhannesson, fyrrverandi þjálfara Vals og FH, með sér í lið í Garðabæinn en þeir félagar munu stýra liði Stjörnunnar saman í sumar þegar Íslandsmótið hefst.

Ólafur er á meðal sigursælustu þjálfara Íslands en hann var í fimm ár á Hlíðarenda áður en hann fór í Garðabæinn og gerði Val tvisvar að Íslandsmeisturum og tvisvar að bikarmeisturum. Rúnar Páll er sá þjálfari í efstu deild sem hefur verið lengst við stjórnvölinn hjá sínu liði en hann tók við þjálfarastöðunni hjá félaginu árið 2013 af Loga Ólafssyni.

Íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson greindi frá því í Sportinu í kvöld sem fram fór á Stöð 2 Sport í gærkvöldi að árið 2017 hefði Rúnar Páll sett sig í samband við Heimi Guðjónsson þegar hann var rekinn frá FH. Rúnar vildi þá fá Heimi með sér í lið í Garðabænum en Heimir fór að lokum til Færeyja og tók við HB.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rúnar reynir þetta. Þú nefndir Heimir áðan og þegar allar dyr virtust lokaðar fyrir Heimi og ekkert lið laust þá veit ég það fyrir víst að Rúnar Páll hafði samband við Heimi og ætlaði að fá hann með sér í þetta,“ sagði Guðmundur í þættinum Sportið í kvöld.

„Já þeir funduðu og þetta var komið ansi langt áður en Færeyjagiggið kemur. Við verðum að gefa Rúnari kredit fyrir þetta. Það er oft talað um að þú sért metinn af því hversu sterkt fólk er í kringum þig og Rúnar er heldur betur óhræddur við það,“ sagði aðstoðarlandsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson sem var gestur þáttarins í gær.

Umræðuna má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert