Erfitt sumar framundan hjá báðum nýliðunum?

Skagamenn fagna marki gegn Fylki síðasta sumar.
Skagamenn fagna marki gegn Fylki síðasta sumar. mbl.is/Hari

Nýliðar Fjölnis og Gróttu eiga erfitt keppnistímabil fyrir höndum ef marka má útkomuna í mótsleikjum vetrarins hjá liðunum í úrvalsdeild karla í fótbolta.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær voru KR-ingar með bestan árangur í mótsleikjunum í vetur þegar lagður er saman árangur í Bose-mótinu í nóvember/desember, Reykjavíkurmótinu og Fótbolti.net mótinu í janúar og Lengjubikarnum í febrúar og mars. Síðan komu Valur, Breiðablik, KA, Víkingur og Stjarnan.

Skagamenn eru næstir í röðinni, með sjöunda besta árangurinn og einn bikar í handraðanum eftir veturinn.

Útkoma nýliðanna þarf ekki að koma á óvart, enda má yfirleitt reikna með því að ný lið eigi erfitt með að ná fótfestu í deildinni. Árangur HK og ÍA í fyrra var þó gott dæmi um að varast bera að afskrifa liðin sem koma úr 1. deildinni.

Fjölnismenn eru með talsverða reynslu af því að spila í efstu deild en Gróttumenn bíða eftir sínu fyrsta tímabili eftir hinn mjög svo óvænta sigur Seltirninga í 1. deildinni í fyrra.

Útkoman hjá FH er það sem mest kemur á óvart, því Hafnarfjarðarliðið er með næstlakasta árangur vetrarins af úrvalsdeildarliðunum tólf.

Lítum þá það sem þessi seinni sex lið deildarinnar gerðu í vetur:

7: ÍA

Skagamenn voru ekki með í Bose-mótinu en þeir voru taplausir í fotbolti.net-mótinu og lögðu þar Breiðablik að velli 5:2 í úrslitaleik á Kópavogsvelli. Í Lengjubikarnum steinlágu þeir hinsvegar fyrir Blikum, 1:7, á sama stað en höfðu lokið keppni með þrjá sigra í fimm leikjum.

ÍA vann fimm af níu mótsleikjum vetrarins, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur leikjum. Sigurinn á Blikum var þeirra eini gegn liði úr úrvalsdeildinni.

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði flest mörk Skagamanna, níu talsins, þrjú þeirra í úrslitaleiknum gegn Breiðabliki, og Steinar Þorsteinsson kom næstur með fimm mörk.

Jóhannes Karl Guðjónsson er áfram með Skagamenn sem verða með mjög svipaðan leikmannahóp og í fyrra. Miðvörðurinn Einar Logi Einarsson er þó hættur og Gonzalo Zamorano fór aftur til Ólafsvíkur. Mögulegt er að ÍA missi Stefán Teit Þórðarson sem hefur verið undir smásjá liða á Norðurlöndum.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og þar má sjá liðin sem eru í sætum átta til tólf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert