Íslandsmótin í fótbolta í hættu

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmót karla í knattspyrnu átti að hefjast 22. apríl næstkomandi og Íslandsmót kvenna átta dögum síðar. Í síðasta mánuði var báðum mótum frestað fram í miðjan maí vegna kórónuveirunnar.

Afar ólíklegt er að mótin geti hafist á þeim tíma, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi almannavarna í dag að aflétting samkomubanna hér á landi myndi líklega ná yfir sumartímann og hafa því einhverjir áhyggjur af því að ekki verði hægt að leika Íslandsmótið í ár. 

„Það er kannski ekki tímabært að tjá sig um það núna (hvort tímabilið fari fram í ár). Við fáum betri mynd af þessu á fundi með yfirvöldum í næstu viku. Þá vitum við meira varðandi afléttingu samkomubannsins og það skýrir okkar stöðu hvað framhaldið varðar, bæði með æfingar og keppni,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, við mbl.is í dag. 

„Auðvitað vonast ég til að við getum haldið mótið í sumar, bæði í yngri flokkum og í meistaraflokkum. Við eigum eftir að ræða þetta betur við heilbrigðis- og almannavarnir,“ bætti Guðni við. Hann viðurkennir að það sé afar ólíklegt að mótið fari af stað í maí.

„Jú við erum að horfa á að því verði frestað lengur en fram í miðjan maí. Það er næsta víst eins og Bjarni Fel segir. Ég sé fram á frekari frestun,“ sagði Guðni Bergsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert