Grótta fær liðsauka frá Breiðabliki

Karl Friðleifur Gunnarsson og Ágúst Þór Gylfason þjálfari Gróttu.
Karl Friðleifur Gunnarsson og Ágúst Þór Gylfason þjálfari Gróttu. Ljósmynd/Grótta

Grótta á Seltjarnarnesi, sem leikur í fyrsta skipti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í sumar, hefur fengið liðsauka frá Breiðabliki.

Unglingalandsliðsmaðurinn Karl Friðleifur Gunnarsson er kominn til Gróttu sem lánsmaður úr Kópavoginum en hann er 18 ára gamall og hefur spilað þrjá leiki með Breiðabliki í efstu deild, auk 27 leikja með yngri landsliðum Íslands.

Ágúst Þór Gylfason þjálfari Gróttu var þjálfari Breiðabliks síðustu tvö ár og Karl lék því undir hans stjórn með Blikum. Á Seltjarnarnesi tók Ágúst við af Óskari Hrafni Þorvaldssyni, sem nú þjálfar Breiðablik.

Grótta leikur sinn fyrsta leik frá upphafi í efstu deild sunnudagskvöldið 14. júní en þá sækir liðið einmitt Breiðablik heim á Kópavogsvöllinn. Þar sem Karl er samningsbundinn Breiðabliki verður hann væntanlega að bíða þar til í 2. umferð með að spila fyrsta leikinn en þá á Grótta að taka á móti Val á Seltjarnarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert