FH staðfestir komu norðankonunnar

Andrea Mist Pálsdóttir í leik með Þór/KA.
Andrea Mist Pálsdóttir í leik með Þór/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

FH staðfesti í dag að knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir sem til þessa hefur spilað með Þór/KA væri gengin til liðs við félagið og myndi spila með því á komandi keppnistímabili.

Frá þessu var greint á Facebook-síðu Hafnarfjarðarfélagsins. Mbl.is greindi frá því á dögunum að hún væri á leið í FH.

Andrea sem er 21 árs gömul samdi við Orobica í ítölsku A-deildinni eftir áramótin en náði aðeins að spila tvo leiki áður en keppni þar var frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hún hefur leikið með meistaraflokki Þórs/KA frá fimmtán ára aldri og var í Íslandsmeistaraliðinu árið 2017. Andrea hefur leikið 97 leiki með Akureyrarliðinu í efstu deild og skorað 14 mörk. Fyrstu mánuði ársins 2019 var hún í láni hjá Vorderland í efstu deild Austurríkis þar sem hún lék fimm leiki og skoraði í þeim fjögur mörk. Andrea á að baki þrjá A-landsleiki og 30 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Andrea er þar með þriðja konan með A-landsleiki að baki sem nýliðar FH fá í sínar raðir fyrir komandi tímabil. Sigríður Lára Garðarsdóttir er komin til félagsins frá ÍBV og Hrafnhildur Hauksdóttir frá Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert