Kemur sterkari heim frá Kýpurdvöl

Jasmín Erla Ingadóttir í leik með Stjörnunni síðasta sumar.
Jasmín Erla Ingadóttir í leik með Stjörnunni síðasta sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jasmín Erla Ingadóttir, 21 árs knattspyrnukona hjá Stjörnunni, er spennt fyrir Íslandsmótinu sem hefst hinn 12. júní næstkomandi. Jasmín, sem er miðjumaður, kom til Stjörnunnar frá FH fyrir síðasta sumar og lék alla 18 deildarleiki liðsins á síðustu leiktíð og skoraði í þeim fimm mörk.

Þá hefur hún einnig leikið með Fylki í meistaraflokki, en hún er uppalin hjá Fjölni. Eftir tímabilið hér heima síðasta sumar hélt hún til Kýpur þar sem hún lék með Apollon Limassol í efstu deild þar í landi í vetur, í láni frá Stjörnunni. Jasmín lék 14 deildarleiki með liðinu og skoraði fimm mörk, en liðið er með mikla yfirburði á Kýpur.

„Þetta sumar er spennandi. Mér líst mjög vel á að fá Betsy Hassett og Ingibjörgu Lúciu [Ragnarsdóttur] til Stjörnunnar. Betsy er mjög mikill hlaupagarpur og er úti um allt og Ingibjörg er mjög sterk inni á miðjunni. Ég hlakka til að spila með þeim,“ segir Jasmín í viðtali í Morgunblaðinu í dag um þann liðstyrk sem Stjarnan hefur nælt í fyrir leiktíðina.

Betsy Hassett, sem hefur leikið 119 landsleiki fyrir Nýja-Sjáland, þrisvar leikið í lokakeppni HM og einu sinni á Ólympíuleikum, kemur frá KR og Ingibjörg frá ÍBV. Stjarnan hafnaði í fimmta sæti deildarinnar í fyrra undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar sem þjálfar Garðabæjarliðið áfram.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert