Hefði viljað fjölga um tvö lið í deildinni

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. mbl.is/Hari

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu, ræddi við Valtý Björn Val­týs­son í hlaðvarpsþætt­in­um Mín skoðun í dag. Íslandsmótið hefst í næsta mánuði og fá Skagamenn lið KA í heimsókn 14. júní í fyrstu umferðinni.

Jóhannes horfði til mótsins í sumar og sagðist almennt bjartsýnn þrátt fyrir erfiðar aðstæður undanfarið vegna kórónuveirunnar. Hann vill hins vegar sjá liðum fjölgað í deildinni, ella er íslenski fótboltinn í hættu á að dragast aftur úr. „Ég hefði viljað fjölga um tvö lið í deildinni, ég er á þeirri skoðun að við getum gert það,“ sagði Jóhannes.

„Það eru alltaf fleiri og fleiri lið að færa sig yfir á gervigras með flóðljósum og það eru þær aðstæður sem við þurfum að hafa á Íslandi ef við ætlum að efla deildina, stækka mótið og hafa betri umgjörð. Mín leið er alltaf sú að fjölga um tvö lið í deildinni sem fyrst.“

Þá bendir Jóhannes á að þótt við búum yfir frábærri aðstöðu hérlendis til að æfa allan ársins hring vanti upp á aðstöðu til að spila keppnisleiki. „Þegar við miðum við þjóðirnar í kringum okkur þá eigum við frábæra aðstæðu til að æfa yfir veturinn. Það sem vantar upp á er aðstaðan til að spila leiki fyrr, að geta byrjað tímabilið fyrr á vorin.“

„Við búum ágætlega að vera með þessar hallir þar sem hægt er að æfa en leikvangarnir okkar, við þurfum bætingu hvað þá varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert