Skórnir af hillunni í Hafnarfirði

Pétur Viðarsson ætlar að taka slaginn með FH í sumar.
Pétur Viðarsson ætlar að taka slaginn með FH í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Pétur Viðarsson hefur ákveðið að taka skóna af hillunni og leika með FH í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, í sumar. Þetta kemur fram á facebooksíðu félagsins. Pétur, sem er 32 ára gamall, ákvað að leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2006.

Hann er mættur aftur, einn ástsælasti leikmaður félagsins síðasta áratuginn. Pétur Viðarsson hefur náð samkomulagi við FH um að taka skóna af hillunni og leika með liðinu út tímabilið 2020. Þvílíkar gleðifréttir á þessum fallega þriðjudegi!“ segir á facebooksíðu Hafnarfjarðarliðsins í dag.

Pétur á að baki 176 leiki fyrir félagið í efstu deild þar sem hann hefur skorað fimm mörk. Hann hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari. Pétur lék átján leiki með liðinu síðasta sumar og skoraði eitt mark þegar FH hafnaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar.

mbl.is