Valskonur að fá mikinn liðsstyrk

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir lék 13 leiki með Þór/KA síðasta sumar.
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir lék 13 leiki með Þór/KA síðasta sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Markvörðurinn Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir er á leið til Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu samkvæmt heimildum mbl.is. Bryndís Lára, sem mætti á sína fyrstu æfingu hjá liðinu í gær, hefur verið án félags síðan hún rifti samningi sínum við Þór/KA eftir að síðasta tímabili lauk en hún lék þrettán leiki með liðinu síðasta sumar.

Bryndís, sem er 29 ára gömul, er uppalin hjá KFR á Hvolsvelli en hún lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Ægi í Þorlákshöfn í 1. deildinni árið 2006. Hún gekk til liðs við ÍBV árið 2012 þar sem hún lék til ársins 2017 þegar hún samdi við Þór/KA á Akureyri. Hún varð Íslandsmeistari með liðinu sama ár og einn besti leikmaður Íslandsmótsins.

Alls á hún að baki 138 leiki í efstu deild fyrir Breiðablik, ÍBV og Þór/KA og þá á hún að baki einn A-landsleik fyrir Ísland. Bryndís Lára lék lítið sumarið 2018 og 2019 þar sem vildi einbeita sér að frjálsum íþróttum og síðasta sumar var hún að glíma við bakmeiðsli. Valskonur vonast til þess að hún nái að hrista af sér meiðslin og geti barist við Söndru Sigurðardóttur um markvarðarstöðuna hjá félaginu.

mbl.is