Geir segir viðbrögð KSÍ óásættanleg

Geir Þorsteinsson og Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson og Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ. mbl.is/Hari

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands og núverandi framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA, birti pistil á samfélagsmiðlum í gærkvöldi þar sem hann gagnrýnir aðgerðaleysi KSÍ vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur komið rækilega niður á knattspyrnufélögum.

Miklar voru væntingar knattspyrnufélaga um stuðning í erfiðum aðstæðum frá KSÍ sem situr á digrum sjóðum,“ segir í upphafi pistils Geirs en hann telur að KSÍ hafi auðveldlega getað gert meira fyrir félögin í landinu, enda fjárhagsstaða sambandsins sterk.

Rekstur ÍA hefur gengið mjög illa síðasta rekstrarár og við það bættist svo ástandið vegna veirunnar og er Geir því í erfiðri stöðu, eins og reyndar flestir framkvæmdastjórar hjá íþróttafélögum á Íslandi í dag.

Knattspyrnufélög um heim allan glíma nú við áður óþekktan rekstrarvanda og íslensk knattspyrnufélög fara ekki varhluta af því ástandi, mikið tekjufall hefur blasað við frá því Covid-veiran nam land á Íslandi. Í miklum rekstrarvanda leita íslensk knattspyrnufélög allra leiða til að skera niður í rekstrinum, endursemja við leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn.“

Versta staða til rekstrar í manna minnum

Þá rekur hann nokkrar ástæður þess að KSÍ ætti að gera meira og vísar meðal annars til þess að samkvæmt ársreikningi sambandsins sé bankainnistæða þess um 800 milljónir króna og óráðstafað eigin fé um 700 milljónir. Þá vísar hann í heimildir FIFA og UEFA sem hafa gefið aðildarsamböndum svigrúm og tæki til að nýta ákveðna styrki til aðstoðar hreyfingunni.

Það getur ekki talist ásættanlegt að KSÍ leiti ekki allra leiða til að nýta sér heimildir UEFA og FIFA sem greinir frá hér að ofan, nú þegar við íslenskum knattspyrnufélögum blasir versta staða til rekstrar í manna minnum. Það er ekki ásættanlegt að KSÍ gefi þær skýringar að hverri krónu hafi verið ráðstafað þegar ljóst má vera að mörg hefðbundin verkefni sambandsins falla niður á þessu ári og verkefnum framtíðar megi forgangsraða í þágu stuðnings við íslensk knattspyrnufélög. Af um 70 m.kr. framlagi FIFA og um 380 m.kr. framlagi UEFA til reksturs á þessu ári má gera þá kröfu að a.m.k. 100 m.kr. megi ráðstafa til íslenskra félaga,“ segir Geir en allan pistilinn má lesa á vefsíðu Skagafrétta með því að smella hér.

mbl.is