Stendur þig á Skaganum eða færð að heyra það

Stefán Teitur Þórðarson í leik með ÍA í fyrra.
Stefán Teitur Þórðarson í leik með ÍA í fyrra. mbl.is//Hari

Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er af miklum knattspyrnuættum. Faðir hans er Þórður Þórðarson, sem lék í marki ÍA um árabil og langafinn Þórður Þórðarson var í gullaldarliði Skagamanna á árum áður. Þá eru frændur Stefáns Teits meðal annars þeir Ólafur, Stefán og Teitur Þórðarsynir sem allir eru kunnir í knattspyrnuheiminum.

Morgunblaðið heyrði í Stefáni Teiti í gær og bað hann um að rýna aðeins í Skagaliðið og komandi Íslandsmót en Skagamenn höfnuðu í 10. sæti í fyrra eftir ótrúlega slitrótt tímabil. ÍA var á toppnum eftir sex umferðir og fimm sigra en vann aðeins tvo af næstu 16 leikjum og gat liðið hreinlega þakkað fyrir að hafa ekki sogast niður í fallbaráttuna af einhverju viti. Stefán, 21 árs, segist eiga von á talsvert meiri stöðugleika hjá liðinu í sumar.

„Ég tel okkur vera að spila miklu betri fótbolta heldur en í fyrra. Þó að við höfum náð einhverjum smá árangri í byrjun, þá skulum við bara tala hreint út með það að við gátum ekkert. Þetta var bara ekki nógu gott tímabil en ég er hundrað prósent viss um að við munum geta sýnt meiri gæði og stöðugleika yfir allt tímabilið í sumar. Ég er mjög jákvæður eins og allir í liðinu,“ segir Stefán sem vinnur alltaf hjá fjölskyldufyrirtækinu Bifreiðastöð ÞÞÞ á Akranesi á sumrin með fótboltanum. Hann segist ekki hafa verið í vandræðum með að halda sér í standi þrátt fyrir að liðið hafi ekki mátt koma saman til æfinga í rúma tvo mánuði.

„Þegar allt fór í lás þá gátum við bróðir minn haldið okkur við út í bílskúr hjá mömmu og pabba, við héldum okkur í góðu standi,“ segir hann og á þar við Þórð Þorstein Þórðarson sem spilar með FH. Skagamenn mættu ÍBV í æfingaleik á miðvikudaginn og spila svo aftur um helgina enda keppast nú öll lið við að koma sínum mönnum í leikform áður en mótið hefst 13. júní. „Svo er leikur um helgina við Víking Ó. Menn eru að taka nokkrar mínútur í þessum leikjum, ekki að spila allar 90. Allir eru auðvitað fullir tilhlökkunar að fara að sparka í fótbolta og gera eitthvað.“

Viðtalið í heild má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »