Mikill hasar í æfingaleik á Skaganum (myndskeið)

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði sigurmark ÍA.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði sigurmark ÍA. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

ÍA hafði betur gegn Víkingi Ólafsvík í vináttuleik í fótbolta á Akranesi í dag, 2:1. Skoruðu Viktor Jónsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson mörk ÍA á meðan Indriði Áki Þorláksson skoraði mark Víkings. 

Mikill hiti var í leiknum þar sem Sindri Snær Magnússon, miðjumaður ÍA, fékk beint rautt spjald í seinni hálfleik fyrir afar ljótt brot á Gonzalo Zamorano, fyrrverandi liðsfélaga sínum hjá ÍA. Skömmu síðar braut Spánverjinn sömuleiðis illa af sér og sauð upp úr. 

Virtist dómarinn Ívar Orri Kristjánsson ætla að flauta leikinn af vegna látanna, en eftir nokkurn atgang tókst að lokum að klára leikinn. Zamorano slapp sjálfur vel og var ekki vikið af velli. 

Víkingur Ó. leikur í Lengjudeildinni í sumar, 1. deild, og ÍA í Pepsi Max-deildinni, úrvalsdeild. Svipmyndir úr leiknum og brotin má sjá hér fyrir neðan en hann var sýndur í beinni útsendingu í sjónvarpi ÍA á Youtube.  

mbl.is