Ég þekki þessa deild og hún er ekki auðveld

Guðmundur Magnússon var leikmaður ÍBV á síðustu leiktíð.
Guðmundur Magnússon var leikmaður ÍBV á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við komum þokkalega undan þessu fríi, það voru allir eins og beljur á vorin að komast út og snerta bolta loksins,“ sagði Guðmundur Magnússon, leikmaður Grindavíkur, í samtali við mbl.is en knattspyrnufélögin eru nú byrjuð að æfa á fullu fyrir komandi Íslandsmót.

Grindavík féll úr efstu deild, Pepsi-deildinni, í fyrra og leikur því í Lengjudeildinni í sumar en liðið leikur fyrsta leik mótsins, á útivelli gegn Þór á Þórsvelli 19. júní.

„Það eru tækifæri til að gera vel. Margir telja að eitt lið geti gengið í gegnum þetta mót. Ég þekki fyrstu deildina vel og hún er ekki auðveld,“ sagði Guðmundur og vísar þar til síns gamla félags, ÍBV, sem einnig féll úr efstu deild í fyrra en margir telja liðið eiga sigurinn vísan í sumar.

Guðmundur spilaði með ÍBV á síðustu leiktíð og skoraði eitt mark í tíu leikjum í efstu deild áður en hann fór að láni til Ólafsvíkinga og skoraði fjögur mörk í átta leikjum í fyrstu deild. Árið 2018 spilaði hann í deildinni með Fram og skoraði 18 mörk í 22 leikjum.

„Við munum á næstu dögum setjast niður og setja markmiðin,“ bætti Guðmundur við en tók undir með blaðamanni að eðlilegt væri að gera kröfu til liðsins um að vera í baráttunni um að komast upp. „Er það ekki alltaf með þessi tvö lið sem koma niður? Þau eru sett í toppbaráttuna fyrir fram. Þetta verður ekkert auðvelt en við erum með hörkulið og ég tel okkur geta gert vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert