Þrjár tvennur á Víkingsvelli

Óttar Magnús Karlsson gerði tvö mörk fyrir Víking.
Óttar Magnús Karlsson gerði tvö mörk fyrir Víking. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur Reykjavík hafði betur gegn Stjörnunni er liðin mættust í æfingaleik í knattspyrnu á Víkingsvelli í dag, 4:3. Eru liðin að gera sig klár fyrir átökin í Pepsi Max-deildinni sem hefst eftir tæpar tvær vikur. 

Óttar Magnús Karlsson kom Víkingi yfir í fyrri hálfleik, áður en Guðjón Baldvinsson jafnaði fyrir Stjörnuna og var staðan í hálfleik 1:1. Kári Árnason fékk rautt spjald í hálfleiknum, en þrátt fyrir það fengu Víkingar að leika með ellefu leikmenn í seinni hálfleik. 

Emil Atlason kom Stjörnunni í 2:1 eftir hlé, en Víkingar svöruðu markinu með látum því Óttar Magnús skoraði sitt annað mark áður en Viktor Örlygur Andrason bætti við tveimur mörkum og kom Víkingum í 4:2. Emil Atlason minnkaði muninn í 4:3 undir lokin og þar við sat. 

Upplýsingar um markaskorara fengust á fotbolti.net

mbl.is